Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 455. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 725  —  455. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 2007.

1.     Inngangur.
    Í umræðum VES-þingsins árið 2007 var að vanda lögð megináhersla á sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar. Af þeim fjölmörgu málum sem fjallað var um á árinu má nefna þrjú málefni sem voru sérstaklega í brennidepli.
    Í fyrsta lagi var ítarlega fjallað um skýrslu stjórnmálanefndar þingsins um öryggi á norðurslóðum. Lykilatriði skýrslunnar voru loftslagsbreytingar og bætt orkuöryggi. Skýrsluhöfundar ræddu um mikilvægi þess að sjónum væri beint að norðurskautinu þar sem loftslagsbreytingar sem þar verða geta haft áhrif víða. Norðurslóðir og norðurskautssvæðið hafa fengið aukið vægi í umræðunni um öryggismál, m.a. sökum ríkra orkuauðlinda og möguleika á nýjum siglingaleiðum með bráðnun hafíss. Annað mál sem fékk mikla athygli á árinu var umræða um athæfi hryðjuverkamanna á landamærum Tyrklands og Írak. Ákafar umræður sköpuðust um alvarleika ástandsins og aðgerðir Verkamannaflokks Kúrda (PKK) sem hefur bækistöðvar í fjallgörðum Íraks við landamæri Tyrklands. Í þriðja lagi varð áframhald á lífseigri umræðu um framtíðarhorfur VES-þingsins og um stofnanatengsl Vestur-Evrópusambandsins við Evrópusambandið (ESB) og Atlantshafsbandalagið en sem kunnugt er hafa miklar og örar breytingar átt sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu síðustu ár. Eitt helsta baráttumál VES-þingsins undanfarin ár og missiri hefur verið aukin þátttaka og hlutur þjóðþinga í lýðræðislegu eftirliti með öryggis- og varnarmálastefnu ESB, og var hún fyrirferðarmikil í umræðunni á árinu 2007.
    VES-þingið hefur verið mikilsverður þátttakandi í umræðunni um hvernig staðið verði að evrópsku þingi er hafi öryggis- og varnarmál til umfjöllunar. Hin sameiginlega öryggis- og varnarmálastefna ESB lýtur ekki framkvæmdastjórn bandalagsins sem slíks heldur er um milliríkjamálefni að ræða. Er þetta grundvallaratriði og hafa fulltrúar VES-þingsins því lagt mikla áherslu á að það séu þjóðþing aðildarríkjanna sem hafi eftirlit með þessum málaflokki en ekki Evrópuþingið. Í allri slíkri vinnu er það grundvallaratriði að fjölþjóðlegar þingmannasamkundur sem hafa bein tengsl við umbjóðendur, þ.e. kjósendur í aðildarríkjunum, endurspegli mikilvæg milliríkjamálefni. Reynslan af slíkum þingmannasamkundum hafi verið afar farsæl og nægi þar að nefna, auk VES-þingsins, NATO-þingið, Evrópuráðsþingið og þing Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

2.    Almennt um Vestur-Evrópusambandið og Vestur-Evrópuþingið.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. VES-þingið var stofnað árið 1954 og kom fyrst saman ári síðar þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. VES-þingið sitja um 400 þingmenn frá 39 þjóðþingum og fer fjöldi þingmanna eftir íbúafjölda viðkomandi aðildarríkis. Ríki, sem eiga aðild að NATO og/eða ESB, geta átt aðild að VES. Alls eiga 28 ríki aðild að VES með mismunandi hætti og 11 ríki til viðbótar hafa aðgang að þinginu. Tíu ríki eiga það sameiginlegt að vera bæði NATO- og ESB-ríki og eru með fulla aðild að VES-þinginu. Þau eru Belgía, Bretland, Frakkland, Holland, Lúxemborg, Ítalía og Þýskaland auk Grikklands, Portúgals og Spánar sem gerðust aðildarríki árið 1990. Ísland, Noregur og Tyrkland, sem eiga aðild að NATO en ekki ESB, eru með aukaaðild (e. associate members). Alls 10 NATO- og ESB-ríki eru með sambandsaðild (e. affiliate members), sem nokkurn veginn jafngildir fullri aðild. Króatía og fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía, sem bæði hafa sótt um aðild að NATO og ESB, eru með aukasambandsaðild (e. affiliate associate partners). Fimm ESB-ríki hafa fasta áheyrnaraðild (e. permanent observers) og tvö sambandsáheyrnaraðild (e. affiliate permanent observers), þ.e. Malta og Kýpur. Þá hafa fulltrúar þjóðþinga Rússlands og Úkraínu stöðu fastagesta (e. permanent guests) á VES-þinginu og sérstakir gestir (e. special guests) eru þingmenn frá Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi.
    VES-þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðs VES og beinir fyrirspurnum til þess. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES-þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeild á eitt sæti í hverri nefnd. Á þinginu starfa, auk málefnanefnda, forsætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, tíu varaforsetar þess (einn frá hverju aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd.
    Starfsemi og umræður á VES-þinginu má greina í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er þingið vettvangur þingmannavíddar Vestur-Evrópusambandsins og skv. 9. gr. endurskoðaða Brussel- sáttmálans frá 1954 er VES-þingið ráðherraráði VES innan handar og ráðgefandi. VES- þingið hefur eftirlit með framkvæmd sameiginlegra varnarskuldbindinga sem kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í 9. gr. sáttmálans kemur fram að „ráðherraráð Vestur-Evrópusambandsins skal birta árlega skýrslu um starfsemi sína [...] til þingmannasamkundu sem samanstendur af fulltrúum aðildarríkja Brussel-sáttmálans [...]“. Starfsemi VES-þingsins er þannig bundin í milliríkjasáttmála og er það því ein þriggja evrópskra þingmannasamkundna sem slíkt á við um. Hinar tvær eru Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið. Í öðru lagi hefur VES-þingið haft það hlutverk, í kjölfar yfirtöku Evrópusambandsins á verkefnum VES árið 2000, að vera tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu og vettvangur þinglegrar meðferðar á sameiginlegri stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Í þriðja lagi hefur VES-þingið eftirlit með milliríkjasamstarfi á sviði hergagnaframleiðslu og rannsókna- og þróunarstarfs í hergögnum sem sinnt er af WEAG og WEAO, tveimur fjölþjóðastofnunum sem starfa undir væng VES.
     Þrátt fyrir umfangsmiklar stofnana- og skipulagsbreytingar í Evrópu á undanförnum árum er VES-þingið enn sem komið er eina evrópska þingmannasamkundan sem gefur þjóðkjörnum þingmönnum færi á að fylgjast með og ræða sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið er vettvangur sem leiðtogar Evrópuríkja nýta til að skýra frá stefnumiðum sínum. Þá viðheldur VES-þingið nánum tengslum við rússnesku dúmuna og býður jafnframt þingmönnum frá Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi, Makedóníu og Úkraínu til funda.

3.    Skipan Íslandsdeildar.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi þingsins. Aukaaðilar geta tekið ríkan þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir njóta þó ekki fullra réttinda og hafa ekki atkvæðis- eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum og gera breytingartillögur. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun. Aukaaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.
    Fram að alþingiskosningum 12. maí voru aðalmenn Íslandsdeildar Guðjón Hjörleifsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Gunnar Örlygsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Einar Már Sigurðarson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Ný Íslandsdeild var skipuð 31. maí. Skv. breytingum á þingsköpum gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn voru Ármann Kr. Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Varamenn voru Björk Guðjónsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Höskuldur Þórhallsson, þingflokki Framsóknarflokks. Á fundi Íslandsdeildar hinn 4. júní var Ármann Kr. Ólafsson kosinn formaður og Einar Oddur Kristjánsson varaformaður deildarinnar. Eftir fráfall Einars Odds tók Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sæti hans í Íslandsdeild. Á fundi Íslandsdeildar 11. október var Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, kjörinn varaformaður. Arna Gerður Bang gegndi starfi ritara Íslandsdeildar á starfsárinu.

4.    Yfirlit yfir fundi.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Nefndir þingsins halda auk þess fundi nokkrum sinnum á ári. Á árinu tók Íslandsdeild þátt í báðum hlutum þingfundarins.

Fyrri hluti 53. fundar VES-þingsins, 4.–6. júní, París.
    Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Kristinn H. Gunnarsson og Ólöf Nordal, auk Örnu Gerðar Bang, ritara deildarinnar. Umræða um öryggi á norðurslóðum, orrustufylki Evrópusambandsins og skuldbindingar Evrópu í Afganistan voru öðrum málum fyrirferðarmeiri á júnífundinum. Þá var meðal annars rætt um skýrslur um stöðugleika og öryggi í Evrópu, Evrópusambandið og öryggi í Suðaustur-Evrópu og starfsemi evrópska landgönguliðsins erlendis. Forseti þingsins, Jean-Pierre Masseret, ávarpaði fundargesti og stýrði umræðum. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á mikilvægi geimvarna og framtíð Evrópu með það í huga að hagsmunir Evrópu og Bandaríkjanna færu ekki alltaf saman. Þingið væri samkunda þar sem skipst er á skoðunum og hugmyndum um varnar- og öryggismál og mikilvægt væri að horfa til hlutverks álfunnar á 21. öld með gagnrýnum augum.
    Georgi Pirinski, forseti búlgarska þingsins, og Christian Schmidt, ráðuneytisstjóri þýska varnarmálaráðuneytisins, ávörpuðu þingið. Schmidt talaði fyrir hönd Þýskalands sem fór með formennsku í Evrópusambandinu og Vestur-Evrópusambandinu frá ársbyrjun til 1. júlí 2007. Hann lýsti áherslum formennskunnar og ræddi um mikilvægi þróunar evrópsku öryggis- og varnarstefnunnar og hversu brýnt væri að auka getu sambandsins á sviði herstjórnarlegrar skipulagningar.
    Teodor Melescanu, varnarmálaráðherra Rúmeníu, sagði inngöngu í Evrópusambandið hafa opnað fjölmargar nýjar leiðir fyrir landið, m.a. til að auka framlag þess til þróunar öryggis- og varnarstefnu sambandsins. Hann ræddi um góðan árangur sambandsins sem unnið hefur ötullega að markmiðum sínum og lagði áherslu á hagsæld, lýðræði og opin samfélög sem megineinkenni aðildarríkjanna. Evrópusambandið hefði stuðlað að öryggi og stöðugleika í álfunni og mikilvægt væri að vinna áfram röggsamlega að þróun hagsældar og öryggis utan Evrópu sem innan.
    Skýrsluhöfundarnir Pedro Agramunt Font De Mora frá Spáni og Odd Einar Dorum frá Noregi kynntu skýrslu stjórnmálanefndar þingsins um öryggi á norðurslóðum, og er það í fyrsta sinn sem skýrsla um loftslagsbreytingar er tekin til umfjöllunar á þinginu. De Mora sagði meginatriði skýrslunnar vera loftslagsbreytingar og bætt orkuöryggi, auk þess sem hún fjallaði um mögulegar afleiðingar uppbyggingar herflota Rússa sem gæti raskað valdajafnvæginu. De Mora sagði mikilvægt að sjónum væri beint að norðurskautinu þar sem loftslagsbreytingar sem þar verða geta haft áhrif víða. Hann benti einnig á að bráðnun hafíss geti opnað nýjar leiðir fyrir hernaðarumsvif og flutninga á olíu og gasi, sérstaklega um Barentshaf. Norðurskautið búi yfir miklum olíu- og gasauðlindum og geti orðið framtíðarorkusvæði fyrir Evrópu. Því væri afar mikilvægt að móta sameiginlega stefnu um verndun loftslags og orkuöryggi, með áherslu á að tryggja að norðurskautið verði áfram skilgreint sem átakalaust svæði í heiminum. Liv Stubholt, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis Noregs, ávarpaði þingið og sagði rússneska flotann ekki hernaðarlega ógn fyrir Noreg og lagði áherslu á mikilvægi þess að ekki væri stuðlað að nýju „köldu stríði“ á norðurskautssvæðinu.
    Í umræðu um skýrslu Gerd Höfer um Evrópusambandið og öryggi í Suðaustur-Evrópu kom fram að bæði Serbía og Bosnía og Hersegóvína eru mjög áfram um að bæta möguleika sína til að fá inngöngu í Evrópusambandið. Embættismenn í Serbíu gera ráð fyrir að viðræður um aðild geti hafist árið 2008 sem gæti leitt til inngöngu árið 2012. Höfer sagði hernaðarlegt ástand í ríkjunum stöðugt og mögulegt að huga að brotthvarfi herafla af svæðinu, að því tilskildu að öllum skuldbindingum verði fullnægt. Þar á meðal eru lagalegar og stjórnskipulegar endurbætur. Hann sagði svæðið eiga langt í land með að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins um inngöngu og nefndi í því samhengi dómskerfið í Kosóvó.
    Manuel Lobo Antunes, ráðuneytisstjóri í Evrópumálaráðuneyti Portúgals, kynnti áherslur formennsku Portúgals í Evrópusambandinu og VES, frá 1. júlí 2007. Í ræðu sinni lagði Antunes áherslu á málefni Kosóvó, Afganistans, Miðjarðarhafssvæðisins og Mið-Austurlanda og sagði þau meðal forgangsverkefna formennskunnar. Hvað Afríku varðar vonaðist hann eftir að mál þokuðust áfram að loknum seinni hluta leiðtogafundar ESB og Afríku sem framundan var í Lissabon, í formennskutíð Portúgals.

Síðari hluti 53. fundar VES-þingsins, 3.–5. desember, París.
    Fundinn sóttu fyrir hönd Alþingis Ármann Kr. Ólafsson, formaður Íslandsdeildar, Kristinn H. Gunnarsson og Björk Guðjónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, ritara deildarinnar. Í upphafi þings var Einars Odds Kristjánssonar, þingmanns og fulltrúa í Íslandsdeild VES, minnst. Umræðum á þingfundum í desember má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi má nefna undirbúning fyrir starf VES-þingsins árið 2008, með kosningu yfirmanna þess og umræðum um fjármál þingsins og ráðherrahliðarinnar. Í öðru lagi ávörp ráðherra, fulltrúa þeirra og boðsgesta. Í þriðja lagi kynningar, umræður og kosningar um skýrslur og tillögur sem lagðar eru fram á þinginu. Endurkjör Jean-Pierre Masseret sem forseta VES-þingsins bar hæst vegna undirbúnings fyrir 54. VES-þingið sem fram fer árið 2008. Starfssamningur Colins Cameron, framkvæmdastjóra þingsins, var framlengdur um fimm ár, auk þess voru tíu varaforsetar kjörnir fyrir sama tímabil. Forseti, varaforsetar og framkvæmdastjóri nutu einróma stuðnings þingheims.
    Umræða um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna, athæfi hryðjuverkamanna á landamærum Tyrklands og Írak, eftirlit með landamærum að sjó í Evrópu, friðargæsluverkefni í Mið-Austurlöndum og möguleg samvinna við Kína um varnarmál voru öðrum málum fyrirferðarmeiri á desemberfundinum. Forseti þingsins, Jean-Pierre Masseret, ávarpaði fundargesti og stýrði umræðum. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á mikilvægi þess að viðhalda og varðveita þann umræðuvettvang sem starfræktur hefur verið milli þinga aðildarríkjanna að tryggja lýðræðislega rannsókn og skoðanaskipti um þróun stefnu í öryggis- og varnarmálum álfunnar (ESDP). Forsetinn ræddi um þá gagnrýni sem ógnar tilvist VES-þingsins og lagði jafnframt áherslu á að það væri ekki til að bjarga tilvist þingsins sem kraftar þess væru virkjaðir, heldur til að bregðast við þörf fyrir evrópskan þingræðislegan umræðuvettvang um varnarmál.
    Mira Gomes, ráðherra sjávar- og varnarmála í Portúgal, ávarpaði þingið og kynnti áherslur formennsku Portúgals í Evrópusambandinu og Vestur-Evrópusambandinu og svaraði spurningum fundargesta. Andrej Ster, utanríkisráherra Slóveníu, gerði grein fyrir formennsku Slóveníu í Evrópusambandinu og Vestur-Evrópusambandinu frá ársbyrjun til 1. júlí 2008. Slóvenía verður þar með fyrst ríkjanna tíu sem gengu í ESB árið 2004 til þess að fara með formennsku í sambandinu. Hann sagði áherslur formennskunnar m.a. þær að styðja við frekari stækkun ESB í samræmi við stækkunarstefnu sambandsins og að halda aðildarviðræðum við Króatíu og Tyrkland áfram með von um jákvæða þróun. Horft verður sérstaklega til þess að efla samstarf ESB við hin ríkin á Vestur-Balkanskaga en aukið samstarf við þau ríki verður helsta áherslumál Slóvena auk þess sem Slóvenía mun beita sér fyrir því að efla svæðisbundið samstarf og þróun á Balkanskaga.
    Skýrsluhöfundurinn Robert Walter frá Bretlandi kynnti skýrslu stjórnmálanefndar þingsins um athæfi hryðjuverkamanna á landamærum Tyrklands og Íraks. Nýlegar árásir Verkamannaflokks Kúrda (PKK) á Tyrki við landamærin höfðu skapað eldfimt og hættulegt ástand á svæðinu. Vecdi Gönul, varnarmálaráðherra Tyrklands, ávarpaði fundinn að lokinni kynningu skýrsluhöfunda en svaraði ekki spurningum fundargesta og vakti það mikla óánægju. Mowafak Abboud, sendiherra frá Írak, ræddi um ástandið við landamærin og svaraði spurningum fundargesta.
    Í skýrslu sem lögð var fram af nefnd þingsins um almannatengsl benti skýrsluhöfundurinn Paul Wille (Belgíu) á að frá því að hryðjuverkin 11. september áttu sér stað hefði áhersla á að tryggja gagnsæi og aukin mannréttindi vikið fyrir þörfinni fyrir bætta og árangursríka leyniþjónustu. Hann sagði slíka þróun geta stofnað í hættu ávinningi síðustu áratuga um gildi lýðræðislegrar rannsóknar á störfum leyniþjónustunnar. Patricia Santers, framkvæmdastjóri skrifstofu eldflaugavarnarmála Bandaríkjanna, ávarpaði einnig þingið og svaraði fyrirspurnum um skýrslu stjórnmálanefndar þingsins um verkefni í öryggismálum handan Atlantshafs.

Alþingi, 8. febr. 2008.



Ármann Kr. Ólafsson,


form.


Birgir Ármannsson.


Kristinn H. Gunnarsson.

Fylgiskjal.


Tilmæli og tilskipanir VES-þingsins árið 2007.


Fyrri hluti 53. þingfundar, 4.–6. júní:

     1.      tilmæli nr. 795 um ESDP: vegur framtíðar – niðurstöður ráðstefnunnar í Berlín – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     2.      tilskipun nr. 131 um þingræðislega rannsókn á ytri aðgerðum,
     3.      tilmæli nr. 796 um öryggi á norðurslóðum,
     4.      tilmæli nr. 797 um orrustufylki Evrópusambandsins,
     5.      tilmæli nr. 798 um Evrópusambandið og öryggi í Suðaustur-Evrópu,
     6.      tilmæli nr. 799 um landgöngulið Evrópu í aðgerðum erlendis,
     7.      tilmæli nr. 800 um stöðugleika og öryggi í Evrópu,
     8.      tilmæli nr. 801 um áfrýjunarnefnd og starfsreglur varðandi áfrýjun,
     9.      tilmæli nr. 802 um hlutverk herafla Evrópu í sendisveitum NATO í Afganistan,
     10.      tilmæli nr. 803 um varnarmálaskrifstofu Evrópu eftir tvö ár,
     11.      tilmæli nr. 804 um geimvarnir: annar hluti,
     12.      tilmæli nr. 805 um flugskeytavörn – sameiginleg afstaða í Evrópu?

Síðari hluti 53. þingfundar, 3.–5. desember:
     1.      tilmæli nr. 806 um eftirlit með landamærum að sjó í Evrópu – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     2.      tilmæli nr. 807 um umleitanir Georgíu til að samþættast stofnunum Evrópu og handan Atlantshafs,
     3.      tilmæli nr. 808 um framtíð takmörkunar á útbreiðslu kjarnorkuvopna,
     4.      tilmæli nr. 809 um áskoranir í öryggismálum handan Atlantshafs,
     5.      tilmæli nr. 810 um Evrópu og friðargæsluverkefni í Mið-Austurlöndum,
     6.      tilmæli nr. 811 um athæfi hryðjuverkamanna á landamærum Tyrklands og Íraks,
     7.      tilmæli nr. 812 um umbótasáttmála ESB og varnir og öryggi Evrópu – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     8.      tilskipun nr. 126 um umbótasáttmála ESB og varnir og öryggi Evrópu – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     9.      tilmæli nr. 813 um fjárhagsáætlun ráðherraráðs VES fyrir árið 2007,
     10.      tilmæli nr. 814 um hermenn framtíðar: framtakssemi Evrópu,
     11.      tilmæli nr. 815 um mögulegt samstarf við Kína um varnarútbúnað,
     12.      tilskipun nr. 132 um fjármögnun ytri starfsemi: hlutverk þjóðþinga,
     13.      tilskipun nr. 133 um leyniþjónustu og nákvæma rannsókn þinga – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins.